03

Efnahagsmál

Hagkerfi um heim allan hafa tekið miklum breytingum á síðustu vikum samfara hraðri útbreiðslu heimsfaraldurs COVID-19. Gripið er til ýmiss konar takmarkana til að stöðva frekari útbreiðslu og verja mannslíf. Þjóðríki tilkynna efnahagslegar aðgerðir sem áður þóttu óhugsandi, seðlabankar tilkynna vaxtalækkanir og aðrar aðgerðir sem ganga lengra en nokkru sinni fyrr. Efnahagslegur kostnaður vegna faraldursins er óhjákvæmilegur og ljóst að það mun taka tíma að vinna upp tjónið. Spár um hagvöxt í heiminum gera ráð fyrir einum mesta samdrætti frá kreppunni miklu á árunum 1928-1933. Spár fyrir Ísland gera ráð fyrir að samdráttur í landsframleiðslu á árinu 2020 verði sá mesti í lýðveldissögunni. Samfara minnkandi eftirspurn hefur störfum fækkað og atvinnuleysi náð nýjum hæðum. Mikil óvissa ríkir um framvinduna, hversu mikill samdrátturinn verður vegna faraldursins og hvenær sterk viðspyrna getur hafist á ný veltur á því hvenær flugsamgöngur komast í eðlilegt horf.
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, á síðast ársfundi samtakanna.

Kaflaskil í íslenskri hagsögu

Óhætt er að segja að árið 2019 hafi verið markvert fyrir margra hluta sakir en það einkenndist fyrst og fremst af upphafi aðlögunar í íslensku efnahagslífi. Í upphafi árs stefndi í hörð átök á vinnumarkaði á sama tíma og vaxandi áhyggjur voru af stöðu ferðaþjónustunnar og áhrif hennar á íslenskt efnahagslíf. Áhyggjurnar reyndust vera á rökum reistar, snarpur viðsnúningur í komum ferðamanna samfara falli flugfélagsins WOW air og frekari áföllum í fluggeiranum ásamt loðnubresti og rýrnun viðskiptakjara breytti efnahagshorfum til hins verra. Í framhaldinu voru mun dekkri hagvaxtarspár dregnar fram. Efnahagslægð gekk fljótt yfir landið sem birtist m.a. í vaxandi atvinnuleysi og minnkandi fjárfestingu í atvinnulífinu.

Fjöldi atvinnulausra

Atvinnuleysi
Mars 2019 Gjaldþrot WOW.
Mars 2020 COVID-19.
Heimild: Vinnumálastofa

Fjöldi ferðamanna á ári

Heimild: Ferðamálastofa

Hagvöxtur á síðasta ári mældist 1,9% sem í sögulegum og alþjóðlegum samanburði virðist við fyrstu sýn vera bærilegur árangur. Þegar horft er til undirliða landsframleiðslunnar blasir við dekkri mynd þar sem ríflega 6% samdráttur mældist í fjárfestingu, þjóðarútgjöld stóðu í stað og útflutningur dróst saman um 5%, munaði þar mestu um 10% samdrátt í þjónustuútflutningi. Í árslok voru rúmlega átta þúsund atvinnulausir og mældist atvinnuleysi 4,3%.

Hagvöxtur árið 2019 meðal ríkja OECD

Breyting á vergri landsframleiðslu milli ára (%)
Heimild: OECD

Árið var þó ekki alslæmt í efnahagslegu tilliti. Innflæðishöftin voru endanlega afnumin og þar með var mikilvægum áfanga náð í íslenskri hagsögu sem einkennst hefur af meiri höftum en hjá öðrum þróuðum ríkjum. Kjarasamningar náðust milli stærstu viðsemjendanna á almennum vinnumarkaði og í framhaldinu lækkaði Seðlabankinn vexti. Stýrivextir lækkuðu um 150 punkta á árinu og stóðu í 3% í árslok. Gengi krónunnar hélst stöðugt og verðbólga mældist við markmið.

Verðbólga árið 2019 meðal ríkja OECD

Breyting á vísitölu neysluverðs milli ára (%)
Heimild: OECD

Meginvextir Seðlabanka Íslands árið 2019

Vextir á 7 daga bundnum innlánum, %
3. apríl 2019 Lífskjarasamningur undirritaður
2020 COVID-19
Heimild: Seðlabanki Íslands

Lognið á undan storminum

Í árslok 2019 voru allar forsendur til að ætla að aðlögun hagkerfisins sem hafin var yrði mjúk og að hagkerfið myndi ná sér fljótt á strik. Sú mynd breyttist hins vegar á fyrstu mánuðum þessa árs þegar ljóst var að útbreiðsla heimsfaraldurs COVID-19 myndi hafa veruleg efnahagsleg áhrif um allan heim. Samfara því að þjóðríki heims lokuðu landamærum og settu á samkomu- og útgöngubönn fóru fljótlega að teiknast upp sviðsmyndir efnahagsáfalla sem engin fordæmi eru fyrir. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) birti hagspá í apríl síðastliðnum og spáði samdrætti á heimsvísu um 3% árið 2020 en til samanburðar gerði sjóðurinn ráð fyrir ríflega 3% hagvexti í spá sinni í janúar. Spáð er að samdrátturinn verði heldur meiri meðal iðnríkja eða rúmlega 6% á meðan gert er ráð fyrir 1% samdrætti meðal nýmarkaðsríkja. Gangi spá sjóðsins eftir blasir við einn mesti samdráttur sem mælst hefur frá kreppunni miklu árið 1929.

Í árslok 2019 voru allar forsendur til að ætla að aðlögun hagkerfisins sem hafin var yrði mjúk og að hagkerfið myndi ná sér fljótt á strik. Sú mynd breyttist hins vegar á fyrstu mánuðum þessa árs þegar ljóst var að útbreiðsla heimsfaraldurs COVID-19 myndi hafa veruleg efnahagsleg áhrif um allan heim. Samfara því að þjóðríki heims lokuðu landamærum og settu á samkomu- og útgöngubönn fóru fljótlega að teiknast upp sviðsmyndir efnahagsáfalla sem engin fordæmi eru fyrir.

Hagvaxtarspá AGS fyrir árið 2020 meðal ríkja OECD

Breyting á vergri landsframleiðslu milli ára (%)
Heimild: Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Svipaðar sviðsmyndir hafa verið að teiknast upp fyrir Ísland og allt stefnir í að samdrátturinn í ár verði sá mesti í lýðveldissögunni. Efnahagslegt mikilvægi ferðaþjónustunnar er nánast hvergi eins mikið í heiminum og á Íslandi. Ferðaþjónustan lagði til ríflega 8,5% af landsframleiðslu, 28 þúsund manns störfuðu í greininni og útflutningsverðmæti ferðaþjónustunnar námu hátt í 500 milljörðum króna í fyrra. Víðtæk áhrif vegna COVID-19 faraldursins á íslenskt atvinnulíf eru því óumflýjanleg. Á meðan áframhaldandi takmarkanir verða á flugi til og frá landinu er ljóst að umsvif ferðaþjónustunnar verða aðeins brot af því sem verið hefur.

Ferðaþjónustan lagði til ríflega 8,5% af landsframleiðslu, 28 þúsund manns störfuðu í greininni og útflutningsverðmæti ferðaþjónustunnar námu hátt í 500 milljörðum króna í fyrra. Víðtæk áhrif vegna COVID-19 faraldursins á íslenskt atvinnulíf eru því óumflýjanleg.

Ferðaþjónusta sem hlutfall af útflutningi

%, árið 2018, alþjóðlegur samanburður, 25 stærstu ríkin með > 1 milljón ferðamenn
Heimild: UNWTO

Uppbygging framundan

Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að undirstöður íslensks efnahagslífs séu sterkar sem gerir hagkerfið betur í stakk búið til að takast á við þann efnahagssamdrátt sem er framundan. Á undanförnum árum hafa heimili, fyrirtæki og hið opinbera greitt niður skuldir og þjóðhagslegur sparnaður hefur meira en fjórfaldast frá árinu 2010. Í árslok 2019 mældist hrein staða við útlönd 670 milljarðar króna eða sem nemur 22,5% af landsframleiðslu. Viðvarandi viðskiptaafgangur hefur verið síðustu ár og gerir spá AGS ráð fyrir að viðskiptaafgangur þessa árs verði rúmlega 2% af landsframleiðslu þrátt fyrir verulegan samdrátt í ferðaþjónustu vegna faraldursins. Þá hefur Seðlabankinn töluvert rými til að mæta gengissveiflum krónunnar með inngripum á gjaldeyrismarkaði, en gjaldeyrisvaraforðinn nemur í dag um 950 milljörðum króna. Viðnámsþróttur bankakerfisins hefur verið aukinn til að mæta afskriftum og væntu útlánatapi. Ólíkt efnahagskrísunni sem gekk hér yfir fyrir rúmlega áratug síðan er hið opinbera, Seðlabankinn og bankakerfið betur í stakk búin til að mæta væntum tekjusamdrætti fyrirtækja og heimila.

Viðskiptajöfnuður

% af VLF

Gjaldeyrisvaraforði

Milljarðar króna
Heimildir: Seðlabanki Íslands

Skuldir hins opinbera árið 2019 meðal OECD ríkja

% af VLF
Heimild: Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Aðgerðir hagstjórnaraðila miðast nú að því að forða lífvænlegum fyrirtækjum frá gjaldþroti og standa vörð um störfin í landinu á meðan áhrifin ganga yfir. Á fyrstu mánuðum þessa árs hafa stjórnvöld og Seðlabankinn kynnt margvíslegar efnahagsaðgerðir. Seðlabankinn hefur lækkað stýrivexti, tilkynnt um markaðsaðgerðir á skuldabréfamarkaði auk þess sem útlánageta bankanna hefur verið aukin um hundruð milljarða króna. Þá hafa stjórnvöld gripið til aðgerða sem eru til þess fallnar að aðstoða fyrirtæki í gegnum þann skell sem fyrirsjáanlegur er. Tjónið er hins vegar mikið, ekki er hægt að bjarga öllum fyrirtækjum og óumflýjanlegt er að störf glatast og atvinnuleysi eykst. Í lok apríl voru rúmlega 35 þúsund manns sem höfðu sótt um hlutabætur hjá Vinnumálastofnun og 20 þúsund manns á atvinnuleysisskrá. Flestar hagvaxtarspá gera ráð fyrir að aðlögun hefjist á seinni hluta þessa árs og að viðspyrnan verði sterk. Óvissan er hins vegar enn mikil á meðan bóluefni er ekki til staðar. Endanlegt fjártjón vegna heimsfaraldurs COVID-19 á Íslandi og á heimsvísu mun ekki liggja fyrir fyrr en óvissunni hefur verið aflétt.

Endanlegt fjártjón vegna heimsfaraldurs COVID-19 á Íslandi og á heimsvísu mun ekki liggja fyrir fyrr en óvissunni hefur verið aflétt.

Hagvaxtarspá AGS fyrir árið 2021 meðal ríkja OECD

Breyting á vegri landsframleiðslu milli ára (%)
Heimild: Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn