09

Litla Ísland

Litla Ísland er vettvangur fræðslu, tengsla og samstarfs lítilla og meðalstórra fyrirtækja óháð atvinnugreinum. Markmið Litla Íslands eru að efla forvarnir og stuðla að bættu rekstrarumhverfi, gæta hagsmuna og styrkja rödd lítilla og meðalstórra fyrirtækja í atvinnulífinu sem og að stuðla að tengslamyndun og þekkingarmiðlun meðal eigenda og stjórnenda lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Bakhjarlar Litla Íslands eru Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök fjármálafyrirtækja.

Margt smátt gerir eitt STÓRT

Lítil og meðalstór fyrirtæki eru stór hluti af íslensku atvinnulífi. Árið 2018 greiddu lítil og meðalstór fyrirtæki 69% af heildarlaunum í landinu. Fyrirtæki með allt að 50 starfsmenn greiddu 397 milljarða í laun og meðalstór fyrirtæki með allt að 250 starfsmenn greiddu 229 milljarða. Saman eru því lítil og meðalstór fyrirtæki stór hluti af atvinnulífi þjóðarinnar og mikilvægt að styðja vel við þau og efla til dáða.

Árið 2018 greiddu lítil og meðalstór fyrirtæki 69% af heildarlaunum í landinu. Fyrirtæki með allt að 50 starfsmenn greiddu 397 milljarða í laun og meðalstór fyrirtæki með allt að 250 starfsmenn greiddu 229 milljarða.

Rekstrargrunnur Litla Íslands

Rekstrargrunnur liggur til grundvallar allri fræðslustarfsemi Litla Íslands en með honum er tryggt að hugað sé að öllum lykilþáttum rekstrar. Sterkur rekstrargrunnur er lykillinn að góðum rekstri og eykur velgengni fyrirtækja. Fyrirtæki með veikan rekstrargrunn er illa undir það búið að takast á við áskoranir í atvinnulífinu.

Góð hugmynd er ekki ávísun á velgengni. Í rekstri þarf að takast á við fjölmargar áskoranir sem er ekki alltaf hægt að sjá fyrir. Huga þarf að lykilþáttum í rekstri og með skipulagi í ákvarðanatöku, aga í fjármálum, hæfu starfsfólki og góðum samningum er hægt að byggja upp sterkan rekstrargrunn sem er til þess fallinn að gefa af sér heilbrigðan og hagkvæman rekstur. Eins eru skýr markmið og skynsamleg markaðssetning lykillinn að góðum árangri.

Heilsufarsmæling á fyrirtækinu þínu

Opnað var fyrir bókun félagsmanna í rekstrarviðtal hjá rekstrarsérfræðingi Litla Íslands. Í rekstrarviðtali er farið almennt yfir helstu þætti í rekstrinum og hvað betur megi fara. Ef styrkja þarf rekstrargrunn er forsvarsmönnum bent á hvar þeir geta leitað frekari aðstoðar við uppbyggingu á sterkum rekstrargrunni.

Rekstrarsérfræðingur Litla Íslands er Ingibjörg Björnsdóttir lögmaður og viðurkenndur bókari en hún hefur áralanga reynslu af fyrirtækjarekstri og rekstrarráðgjöf.

Ingibjörg Björnsdóttir er viðurkenndur bókari, lögmaður og rekstrarsérfræðingur Litla Íslands.

Fræðsluröð Litla Íslands um lykilþætti í rekstri

Opin fræðsla um lykilþættina skipulag, starfsmenn og markaðsmál var áberandi í vetrarstarfi Litla Íslands. Í stað hefðbundinnar fræðsluraðar í Húsi atvinnulífsins fór fræðslan fram í formi hlaðvarpa og rekstraráðsmyndbanda og er aðgengileg á vef og samfélagsmiðlum Litla Íslands.

Lilja Bjarnadóttir fjallaði á árinu um úrlausn ágreinings á vinnustöðum og mikilvægi þess að miðla málum í rekstri.

Caroline Cheron innanhússstílisti hjá Bonjour ehf. fjallaði um mikilvægi þess að skipuleggja vinnurými vel þar sem litrík og vel hönnuð rými gætu stuðlað að vellíðan starfsmanna og viðskiptavina.

Lilja Bjarnadóttir sáttamiðlari og lögfræðingur hjá Sáttaleiðinni ehf. fjallaði um úrlausn ágreinings á vinnustað og mikilvægi sáttamiðlunar í rekstri enda væri málarekstur tímafrekur og kostnaðarsamur.

Sigurður Svansson sérfræðingur í stafrænni markaðssetningu hjá Sahara ehf. fjallaði um hvernig vinna mætti gott markaðsstarf án mikils tilkostnaðar. Til að ná árangri í rekstri væri mikilvægt að vinna hnitmiðað og skipulagt markaðsstarf.

Fræðsluröð Litla Íslands um lykilþætti í rekstri

Vakin var athygli á Litla Íslandi og hlutverki þess með kynningarmyndbandi sem má finna á vefsíðu Litla Íslands sem og samfélagsmiðlum (Facebook-síðu, Facebook-hóp og LinkedIn). Þar er einnig að finna fræðslumyndbönd um praktísk mál í rekstri eins og ráðningarsamninga, leigusamninga og rekstrarkostnað.

Fræðslumyndband úr smiðju Litla Íslands; lykilþættir að hafa í huga til að ná árangri í markaðsstarfi.
Kynningarmyndband Litla Íslands.