13

Frá Þjóðarsátt til Lífskjarasamnings

Á síðasta ári gáfu Samtök atvinnulífsins út sögu samtakanna 1999 – 2019 en höfundur verksins er Guðmundur Magnússon, sagnfræðingur. Guðmundur þekkir vel sögu aðila vinnumarkaðarins því árið 2004 gáfu SA út rit hans FRÁ KREPPU TIL ÞJÓÐARSÁTTAR þar sem rakin er saga Vinnuveitendasambands Íslands 1934 – 1999.

Bók Guðmundar er ríkulega myndskreytt, aðgengileg og fengur öllu áhugafólki um vinnumarkað á Íslandi og þróun hans frá stofnun Samtaka atvinnulífsins fram til síðasta árs.

Í bókinni segir frá stofnun SA 1999 og breytingum á atvinnugreinafélögunum en þar var brugðist við breytingum á þjóðfélaginu og viðhorfum til starfs og skipulags samtaka atvinnurekenda. Hús atvinnulífsins var tekið í notkun 2002 og auðveldaði allt samstarf aðildarsamtaka SA.

Fulltrúar SA hittu formenn ríkisstjórnarflokkana að máli í Stjórnarráðinu í mars 2000 til að ræða aðsteðjandi umfangsmikil verkföll á landsbyggðinni. Þorgeir Baldursson, varaformaður SA, Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, Davíð Oddsson, forsætisráðherra, Finnur Geirsson, formaður SA og Ari Edwald, framkvæmdastjóri SA.

Fjallað er um Þjóðarsáttarsamninginn 1990, aðdraganda hans og forgöngu forsvarsmanna Vinnuveitendasambandsins og Alþýðusambandsins við þau vatnaskil sem þá urðu. Raktir eru kjarasamningar fyrstu áranna eftir stofnun SA og efnahagsþróun þess tíma. Í kjölfar hruns fjármálakerfisins 2008 stóðu samtökin frammi fyrir erfiðum kjarasamningum og samskiptum við stjórnvöld en þau mörkuðust af því að erfitt reyndist að standa við fyrirheit vegna Stöðugleikasáttmálans 2009. Skiptar skoðanir voru innan samtakanna um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu en ákveðið var að þau myndu ekki beita sér fyrir aðildinni.

Betri vinnubrögð og aukinn ávinningur. Salek-samkomulagið handsalað og kynnt í Iðnó í október 2015.

Eftir því sem efnahagur þjóðarinnar batnaði á síðustu árum lögðu samtökin vaxandi áherslu á  breytingar á íslenska kjarasamningalíkaninu að norrænni fyrirmynd, þar sem staða og framleiðniþróun fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni myndi leggja grunn að kjarabótum sem unnt yrði að semja um á hverjum tíma. Launastefnan yrði þannig mörkuð af samningsaðilum á almennum vinnumarkaði á grunni aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu og samningsaðilar í opinbera geiranum fylgdu merki almenns vinnumarkaðar. Komið yrði í veg fyrir megineinkenni íslenska kjarasamningalíkansins, þrálátt höfrungahlaup, þar sem stéttarfélög sem síðast semja fá mestu kjarabæturnar.

Þungu fargi var létt af forystumönnum SA og ASÍ eftir samkomulag um endurskoðun kjarasamninga í janúar 2016.

Með Lífskjarasamningnum vorið 2019 náðust tiltölulega hófstilltir samningar sem virtust geta skapað grundvöll umbóta á vinnumarkaði. Allt er þetta skilmerkilega rakið í bók Guðmundar.

En undir lok árs 2019 kviknaði veira í Wuhan borg í Kína sem kippti grundvellinum undan kjarabótum Lífskjarasamningsins en það er önnur saga.

Aðilar vinnumarkaðarins á leið í Ráðherrabústaðinn til samráðs við ráðherra. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA og Hilmar Harðarson, formaður Samiðnar.

Í bókarumsögn ritar Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, m.a. eftirfarandi: „Vönduð línu- og súluritin í bókinni sýna að kaup og kjör hafa batnað verulega á undanförnum 20 árum þrátt fyrir að „hér varð hrun“ svo að vitnað sé til orða sem oft hafa heyrst eftir haustið 2008. Því ber að fagna að Samtök atvinnulífsins skuli fela Guðmundi Magnússyni að skrá sögu sína. Með því er mikill fróðleikur varðveittur á einum stað.“