11

Erlend samskipti

Stór hluti lagaumhverfis atvinnulífsins kemur frá Evrópusambandinu. Áhersla Samtaka atvinnulífsins í erlendum samskiptum snýst því fyrst og fremst um að gæta hagsmuna íslenskra fyrirtækja gagnvart þeirri löggjöf. Það er gert með aðild SA að ráðgjafanefnd EFTA, BusinessEurope, og norrænu samstarfi.

BusinessEurope

SA eiga aðild að BusinessEurope sem eru heildarsamtök evrópskra atvinnurekenda. Sú aðild er nýtt til að fylgjast með þróun mála á vettvangi Evrópusambandsins og koma á framfæri sjónarmiðum um málefni sem varða samstarfið um EES. Samtökin gegndu mikilvægu hlutverki í efnahagslegum viðbrögðum við heimsfaraldrinum. Þau tóku t.d. saman efnahagsaðgerðir flestra landa í heiminum og miðluðu þeim til aðildarsamtaka svo hægt væri að skoða hverjar þeirra gætu komið að gagni í hverju landi fyrir sig.

Forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs er jafnframt fastafulltrúi (e. Permanent Delegate) SA gagnvart BusinessEurope. Hann sótti fund forseta aðildarsamtaka BusinessEurope í Helsinki í júní ásamt formanni, fund fastafulltrúa í Brussel í september og forsetafund í Zagreb í desember. Forsetafundir ársins 2020 eru fyrirhugaðir í Berlín í júní og Lissabon í nóvember.

Norrænt samstarf

Samtök atvinnulífsins leggja ríka áherslu á að taka þátt í samstarfi norrænna systursamtaka sinna. Þau eru Dansk arbejdsgiverforening (DA) og Dansk Industri (DI) í Danmörku, Elinkeinoelämän keskusliitto (EK) í Finnlandi, Næringslivets Hovedorganisasjon (NHO) í Noregi og Svenskt Näringsliv (SN) í Svíþjóð. Um stór og öflug samtök er að ræða sem búa yfir mikilli sérfræðiþekkingu á málum atvinnulífsins og er mikilvægt að geta fylgst með áherslum þeirra enda oft hægt að líta til nágrannaríkja okkar í leit að fyrirmyndum, til að mynda varðandi undirbúning á regluverki hér á landi.

Um stór og öflug samtök er að ræða sem búa yfir mikilli sérfræðiþekkingu á málum atvinnulífsins og er mikilvægt að geta fylgst með áherslum þeirra enda oft hægt að líta til nágrannaríkja okkar í leit að fyrirmyndum, til að mynda varðandi undirbúning á regluverki hér á landi.

Samstarfið felst meðal annars í að formenn og framkvæmdastjórar samtakanna hittast að jafnaði tvisvar á ári og jafnframt eru haldnir árlegir fundir lögfræðinga, hagfræðinga, skattasérfræðinga, samskiptastjóra, umhverfissérfræðinga og vinnumarkaðssérfræðinga. Tilgangur fundanna er meðal annars að fara yfir það sem er efst á baugi og fjalla um sameiginleg hagsmunamál og mismunandi nálganir í hverju landi fyrir sig en einnig eiga þessir hópar í samskiptum milli funda vegna einstakra mála.

Fundur formanna og framkvæmdastjóra norrænu samtakanna var haldinn á Íslandi í lok ágúst þar sem m.a. var rætt um loftslagsmál. Á fundinum kom skýrt fram að fyrirtæki á Norðurlöndum geti gegnt lykilhlutverki við að hanna og þróa lausnir sem nýtist við að ná tökum á loftslagbreytingum á komandi misserum. Til að markmið Parísarsamkomulagsins náist þurfi að efla nýsköpun og styrkja starfsumhverfi fyrirtækja þannig að hægt sé að hraða innleiðingu grænna lausna. Þar skipti gott samstarf atvinnulífs og stjórnvalda meginmáli því tíminn til að bregðast við sé takmarkaður. Samtökin muni leggja sitt af mörkum til að heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna náist fyrir 2030 og haldi áfram að setja málefni umhverfisins í forgrunn.

Efri röð frá vinstri: Jón Ólafur Halldórsson, stjórnarmaður í SA, Mari Sundli Tveit, forstöðumaður hjá NHO, Jan-Olaf Jacke framkvæmdastjóri SN, Jacob Holbraad framkvæmdastjóri DA, Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA, Jyri Häkämies framkvæmdastjóri EK, Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri SI og Anders Ladefoged, forstöðumaður hjá DI.

Neðri röð frá vinstri: Pekka Lundmark forseti EK, Lisbeth Dalgaard formaður DA, Fredrik Persson forseti SN, Guðrún Hafsteinsdóttir formaður SI, Arvid Moss forseti NHO og Lars-Peter Søbye forseti DI.

Brexit

Framtíðarfyrirkomulag viðskiptasambands Íslands og Bretlands er gríðarlegt hagsmunamál fyrir íslenskt atvinnulíf enda flytja Íslendingar út vörur til Bretlands fyrir um 70 milljarða króna á ári og til landsins fyrir um 40 milljarða króna. Samsvarar það um 10% af öllum útflutningsverðmætum landsins og 5% af innflutningi. Umfang þjónustuviðskipta milli ríkjanna er einnig umtalsvert. Flutt er út þjónusta fyrir um 70 milljarða króna sem er um 10% af heildinni en innflutt þjónusta var um 70 milljarðar króna eða um 20% af heild. Samtök atvinnulífsins hafa fylgst vel með og átt samráð við fulltrúa stýri- og vinnuhópa utanríkisráðuneytisins. Ljóst er að útganga Breta hefur í för með sér margvíslegar breytingar á samstarfi við önnur ríki Evrópu, þ.á.m. Ísland. SA hafa fylgst vel með viðræðum íslenskra stjórnvalda við Breta um fríverslun og framtíðarskipan sambands landanna að öðru leyti.

Framtíðarfyrirkomulag viðskiptasambands Íslands og Bretlands er gríðarlegt hagsmunamál fyrir íslenskt atvinnulíf enda flytja Íslendingar út vörur til Bretlands fyrir um 70 milljarða króna á ári og til landsins fyrir um 40 milljarða króna. Samsvarar það um 10% af öllum útflutningsverðmætum landsins og 5% af innflutningi.

Business at OECD

SA eiga aðild að Business at OECD (BIAC) sem eru samtök atvinnurekenda í OECD ríkjunum. Samtökin beita sér fyrir hagsmunum atvinnurekenda gagnvart OECD og aðildarríkjum þess. Samtökin gegndu mikilvægu hlutverki í efnahagslegum viðbrögðum við heimsfaraldrinum, m.a. við að deila greiningum frá hagfræðingum OECD til aðildarsamtakanna.

Ráðgjafarnefnd EFTA 2019

SA eiga aðild að Ráðgjafarnefnd EFTA sem er samstarfsvettvangur aðila vinnumarkaðarins í EFTA-löndunum og fjallar um þróun EES-samningsins með hliðsjón af hagsmunum sem aðilar vinnumarkaðarins gæta. Nefndin hittist að jafnaði fjórum sinnum á ári. Í tengslum við fundi nefndarinnar er árlega haldinn fundur með stjórnarnefnd EFTA (e. Standing Committee), ráðherrum EFTA-ríkjanna, þingmannanefnd EFTA og þeim ráðherra EFTA-EES ríkjanna sem hefur forystu fyrir EFTA hverju sinni. Nefndin vinnur annars vegar að gerð sameiginlegra álitsgerða með hliðstæðri ráðgjafarnefnd Evrópusambandsins og hins vegar að sjálfstæðum álitsgerðum sem kynntar eru fyrir fastanefnd EFTA í Brussel og ráðherrum EFTA-ríkjanna.

Á árinu 2019 var fjallað um Brexit, stöðuna og möguleg áhrif og stöðu viðræðna EFTA um fríverslunarsamninga. Einnig voru til umfjöllunar staða og þróun félags- og vinnumarkaðsmála í Evrópu, samskipti og hlutverk aðila vinnumarkaðarins og samskipti EFTA og ESB-ríkjanna. Þá var umræða um áherslur í starfi nefndarinnar. Nefndin tók þátt í viðburðum aðila vinnumarkaðarins sem tengdust 25 ára afmæli EES-samningsins. Einnig sendi ráðgjafarnefndin frá sér umsagnir um mál á vegum ESB sem tengdust vinnumarkaðnum.

Ráðgjafarnefnd EES sem er skipuð fulltrúum úr ráðgjafarnefnd EFTA (annarra en Svisslendinga) og fulltrúa efnahags- og félagsmálanefndar ESB, á grundvelli EES-samningsins, hittist í Brussel 23.- 24. maí 2019. Meginefni fundarins var umfjöllun og afgreiðsla á tveimur ályktunum og skýrslum nefndarinnar. Annars vegar um Vinnumálastofnun Evrópu og hins vegar um ávinning EES-samningsins fyrir EES-löndin undanfarin 25 ár.