Umhverfisdagur atvinnulífsins
Umhverfisdagurinn var haldinn í fjórða sinn 2019 en að deginum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og SVÞ - Samtök verslunar og þjónustu. Dagskráin fór fram í Hörpu þann 9. október og þar voru flutt áhugaverð erindi, hvetjandi sögur frá fyrirtækjum og umhverfisverðlaun atvinnulífsins afhent. Lovísa Árnadóttir upplýsingafulltrúi Samorku stýrði fundi og eru upptökur af miklum hluta dagskrárinnar aðgengilegar á vef SA. Það hefur sýnt sig að dagurinn er mikilvægur þar sem fólk kynnist og skiptist á skoðunum og reynslu. Umhverfisdaginn sóttu á fjórða hundrað manns.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, sagði atvinnulífið vilja starfa í sátt við umhverfi sitt og að fyrirtækin sýndu sífellt meiri ábyrgð í þessum málum. Þetta er hluti af markaðshagkerfinu þar sem lögð er áhersla á sjálfbæra nýtingu þannig að þeir sem á eftir koma geti haldið áfram að nýta gæði umhverfisins óskert. Hann sagði stærstu áskoranir heimsins ekki verða leystar í nefndum og ráðum heldur með nýsköpun, þróun og hugkvæmni sem verður til í atvinnulífinu. Smám saman verður til hljóðlát bylting í samstarfi fyrirtækja, háskóla og stofnana. Umhverfisdagurinn verði sífellt mikilvægari í starfi samtakanna í atvinnulífinu. Í atvinnulífinu má finna lausnir á áskorunum í umhverfismálum, þar má finna drifkraft nýrra lausna.
Smám saman verður til hljóðlát bylting í samstarfi fyrirtækja, háskóla og stofnana. Umhverfisdagurinn verði sífellt mikilvægari í starfi samtakanna í atvinnulífinu.
Heiðar Guðjónsson, formaður Efnahagsráðs norðurskautsins sagði norðurslóðir áhugavert svæði vegna þess að það tengi 90% efnahags heimsins, þar eru miklar auðlindir en hlutfallslega fátt fólk. Á síðustu 10 árum hefur hagur milljarða manna batnað verulega og sú þróun mun halda áfram. Borgir eins og Sjanghæ eru nær norðurskautinu en miðbaug. Þjóðirnar á norðurslóðum eru til fyrirmyndar í ábyrgri nýtingu náttúruauðlinda því heimamenn bera ábyrgð á nýtingunni. Hann fór yfir fyrirhugaðar framkvæmdir á norðurslóðum t.d. í höfnum og lestarsamgöngum. Þetta mun stytta flutningaleiðir og draga úr umhverfisáhrifum þeirra. Hann fjallaði um gríðarlega uppbyggingu gagnavera sem eru orðin stærsti einstaki notandi raforku í heiminum og hefur tekið við af álframleiðslu. Á Íslandi er hagstætt veðurfar fyrir gagnaver sem dregur úr kæliþörf og í boði er umhverfisvæn orka. Gagnaflutningar um norðurslóðir munu aukast verulega sem opnar nýja möguleika fyrir þá sem þar búa. En það verður að tryggja að allir gangi af fullri ábyrgð um þetta svæði og að umhverfið sé haft í hávegum.
Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður samstarfsvettvangs um grænar lausnir, sagði hættur felast í röskun á loftslagi. Við því verði að bregðast og draga úr losun. Í lágkolvetnahagkerfi felast tækifæri sem stjórnvöld og atvinnulíf geta unnið að saman. Samstarfsvettvangurinn er mikilvægur til að fá atvinnulífið til samstarfs um lausnir og til að kynna þessar lausnir fyrir alþjóðasamfélaginu. Kynna á fjölbreytt framlag Íslands, vinna saman að markmiði um kolefnishlutleysi árið 2040, styðja markaðs- og þróunarstarf fyrirtækja tengt loftslagsmálum og vinna að auknum útflutningi vöru, lausna og hugvits. Ætlunin er að efla samstarf um kynningar bæði á netinu og opna kynningarhús fyrir erlendar sendinefndir. Unnur Brá fjallaði um fyrirhugað samstarf nokkurra þjóða um að gera samning um afnám tolla á umhverfisvænar vörur, afnám niðurgreiðslu á jarðefnaeldsneyti og leiðbeiningar og þróun um hvernig umhverfismerkingar verði best nýttar. Hún sagði að við þyrftum að leggja mikið á okkur til að skapa komandi kynslóðum betri framtíð. Það er okkar að sýna að lausnirnar séu til og að nýta þær.
Unnur Brá fjallaði um fyrirhugað samstarf nokkurra þjóða um að gera samning um afnám tolla á umhverfisvænar vörur, afnám niðurgreiðslu á jarðefnaeldsneyti og leiðbeiningar og þróun um hvernig umhverfismerkingar verði best nýttar.
Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, fjallaði um þrautseigju útgerðarmanna um allt land sem börðust fyrir hag sinna bæjarfélaga á fyrri tímum. Síðan hefur margt breyst og loks með aflamarkskerfinu og frjálsu framsali tókst að koma á sjálfbærri nýtingu fiskistofnanna. Þetta hefur leitt til stórkostlegra framfara bæði í sjávarútvegi og eins í tengdum fyrirtækjum sem þróa tækni- og hugbúnaðarlausnir. Þetta hefur líka haft í för með sér jákvæða þróun í umhverfismálum og stefnt er að því að olíunotkun útgerðarinnar minnki í 114 þúsund tonn árið 2030 en hún var 247 þúsund tonn árið 1990. Sjávarútvegurinn er fyrirmynd. Fjárfesting er umhverfismál. Það er unnt að nýta auðlindina betur, skapa meiri verðmæti og fækka skipum. Hann nefndi dæmi um 10 skip sem fiskuðu um 2400 tonn árið 1980 í einni ferð en nú getur eitt skip náð 3200 tonna afla. Gæðin eru heldur ekki sambærileg. Hann sagði rannsóknarhóp frá Cornell háskólanum vera að taka út íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið sem geti verið fyrirmynd annarra þjóða í umhverfismálum. Til að bregðast við aukinni fæðuþörf vegna fjölgunar mannkyns þá þarf að auka fiskeldi til að fullnægja eggjahvítuþörfinni. Við eigum stórkostleg tækifæri til að auka fiskeldi hér á landi með lágmarks umhverfisspori. Unnt er að kolefnisjafna alla losun sjávarútvegsins með því að fyrirtækin nýti kolefnisgjaldið til landgræðslu, skógræktar og endurheimtar votlendis. Hann vitnaði að lokum til Einars Benediktssonar: „Reistu í verki viljans merki. Vilji er allt sem þarf.“
Brynjólfur Stefánsson, sjóðsstjóri hjá Íslandssjóðum, fjallaði um áskoranir og tækifæri vegna loftslagsbreytinga sem munu magnast og fela í sér aukinn kostnað. Þess vegna þarf gríðarlegar nýjar fjárfestingar á næstu árum til að bregðast við ógninni. Ekki er mikill tími til stefnu því meðalhitinn geti verið kominn yfir hættumörk innan tíu ára. Því er nauðsynlegt að grípa til aðgerða. Aukning koltvísýrings í andrúmsloftinu verður sífellt hraðari. En síðustu 200 ár hafa lífsgæði fólks aukist stöðugt. Framfarirnar hafa þó kostað sitt. Áskorunin er að ekki sígi frekar á ógæfubraut þannig að kynslóðir framtíðar geti notið sambærilegra lífsgæða. Nauðsynlegt er nýta markaðslausnir til að útdeila takmörkuðum gæðum. Nefna má viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir. En á þessu sviði ríkir markaðsbrestur. Skattar kunna að vera besta leiðin til að bregðast við og að þeir beinist frekar að neyslu en nú er. Almenningur mun beita auknum þrýstingi á stjórnmálamenn og atvinnulíf og að þeir sem menga beri kostnaðinn sem menguninni fylgir. Tækniþróunin gengur út á að gera meira með minna. Hér nýtum við sjávarafla betur en aðrir. Aukinni framleiðslu má ekki fylgja aukinn útblástur heldur að markaðurinn beini okkur í umhverfisvænni átt í neyslu og fjárfestingum. Tækifæri felast í tækniþróun og allir þjóðfélagshópar verða að eigna sér baráttu gegn loftslagsbreytingum. Breið samstaða er nauðsyn.
Þau Októ Einarsson, stjórnarformaður Ölgerðarinnar, Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar og Þorsteinn Jóhannesson, framkvæmdastjóri Farfugla sögðu frá áherslum fyrirtækja sinna í umhverfismálum og var þar víða komið við. Fjallað um hvernig hægt er að draga úr umbúðanotkun, hvernig hanna megi umhverfisvænar umbúðir og bæta upplifun viðskiptavina af vörum og þjónustu fyrirtækjanna.
Bryndís Skúladóttir, verkfræðingur hjá VSÓ, fjallaði um hringrásarhagkerfið, Jón Björn Skúlason um orkuskipti í flutninga- og hópferðabílum og að lokum sagði Gestur Pétursson frá áherslum Veitna í loftslagsmálum.
Umhverfisverðlaun atvinnulífsins
Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru veitt í tveimur flokkum, annars vegar fyrir framtak ársins og hins vegar var valið umhverfisfyrirtæki ársins. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin. Í valnefnd sátu Ragna Sara Jónsdóttir formaður, Bryndís Skúladóttir efnaverkfræðingur og Sigurður M. Harðarson, úttektarstjóri hjá iCert og véltæknifræðingur.
Framtak ársins í umhverfismálum á Krónan. Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar veitti viðurkenningunni viðtöku sem fyrirtækið hlaut fyrir að hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt og sýna frumkvæði með nýjum verkefnum til að draga úr sóun og umhverfisáhrifum fyrirtækisins.
Gréta María sagði: „Við hjá Krónunni erum mjög stolt af þessari viðurkenningu. Við erum svo lánsöm að vera með frábært starfsfólk sem er tilbúið að leggja heilmikið á sig til að innleiða breytingar í þágu umhverfisins. Það skiptir máli fyrir starfsandann að vera virkur þátttakandi í þessum mikilvægu breytingum sem umhverfið kallar svo sterkt á. Viðskiptavinir okkar hafa sýnt það í verki að þeir eru alltaf fyrst og fremst í liði með umhverfinu og hafa tekið virkan þátt í þessu ferðalagi með okkur með því að senda okkur hugmyndir og með því að benda okkur á það sem betur mætti fara. Við vitum að við eigum enn langt í land en við höfum tekið mörg skref í rétta átt og erum hvergi nærri hætt. Þessi viðurkenning er okkur enn meiri hvatning til að halda áfram á þessari vegferð, enda ljóst að það er engin framtíð nema með umhverfismálin á oddinum.“
Umhverfisfyrirtæki ársins er Brim. Brim hefur tekið umhverfismálin föstum tökum. Fyrirtækið leggur áherslu á samfélagsábyrgð og virðingu fyrir umhverfinu og hefur unnið að því að kortleggja áhrif og ábyrgð félagsins. Þá hefur Brim sett sér markmið og mælikvarða til að mæla árangur, draga úr sóun og auka verðmæti. Brim hefur dregið markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda, fjárfest í nýrri tækni og skipum sem hefur skilað miklu.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, tók við verðlaununum og sagði m.a.: „Við í Brimi erum þakklát fyrir þessa viðurkenningu. Hún gerir okkur ánægð og stolt. Virðing fyrir náttúru hefur verið okkar leiðarljós og við sjáum að áhersla á umhverfismál og sjálfbærni skilar sér í aukinni arðsemi og miklum ábata fyrir samfélagið í heild. Við í Brimi ætlum að halda áfram á sömu braut. Umhverfisverðlaunin eru hvatning til að gera enn betur.“
Betri heimur – Byrjar heima
Síðastliðið haust hófst fundaröð um atvinnulíf og umhverfi undir yfirskriftinni Betri heimur – Byrjar heima. Fundirnir urðu þó færri en til stóð vegna utanaðkomandi aðstæðna. Ætlunin er að þessir fundir verði reglulegir viðburðir þar sem sagt er frá umhverfisstarfi fyrirtækja eða einstökum tökum á umhverfismálum. Fundirnir eru stuttir 30 – 40 mínútur, sendir út á netinu og síðan gefst gestum í sal tækifæri að spyrja viðkomandi spjörunum úr. Þrír fundir voru haldnir og er upptökur af erindunum að finna á vef SA.
Fyrstur kom Torfi Þorsteinsson forstöðumaður samfélagstengsla Brims og sagði frá umfangsmiklu umhverfisstarfi fyrirtækisins sem skömmu áður hlaut viðurkenningu sem umhverfisfyrirtæki ársins.
Því næst fjölluðu Jóna Bjarnadóttir, forstöðumaður umhverfis og auðlinda hjá Landsvirkjun og Daði Sverrisson, verkefnastjóri innra kolefnisverðs Landsvirkjunar, um innra kolefnisverð á tímum loftslagsbreytinga. Fyrirtækið hefur sett sér innra kolefnisverð og nýtir það til að taka ákvarðanir um fjárfestingar og rekstur.
Að lokum kom Áslaug Hulda Jónsdóttir hjá Pure North Recycling í heimsókn og fjallaði um plast og nýsköpun. Hún sagði meðal annars: „(e)ndurvinnsla er fjárfesting til framtíðar. Við eigum að minnka notkun á plasti og endurvinna það. Tryggja að plast verði aftur plast. Það verður að setja hvata inn í kerfið sem hvetja til endurvinnslu á Íslandi! Atvinnulífið er að vakna. Jákvæðni og þátttaka í verkefni eins og Þjóðþrifum er gott dæmi um það."