06

Menntamál

Með öflugu menntakerfi skapast traustur grundvöllur til frekari þróunar og eflingar íslensks atvinnulífs en árangur okkar í menntamálum er jafnframt undirstöðuatriði þegar kemur að samkeppnishæfni þjóðarinnar. Það er því ekki að undra að Samtök atvinnulífsins hafa um árabil litið á menntun og fræðslumál sem einn af hornsteinum íslensks samfélags.

Í nóvember 2019 kynntu Samtök atvinnulífsins áherslur sínar í menntamálum með útgáfu skýrslu sem nefnist Menntun og færni við hæfi. Í skýrslunni er að finna um þrjátíu tillögur sem miða að því að bæta öll skólastig, framhaldsfræðslu og umgjörð menntamála.  Vinna við tillögurnar hafði staðið yfir í hátt í tvö ár og í tengslum við hana var leitað til tuga sérfræðinga sem starfa víða í skólakerfinu auk þess sem stuðst var við fjölda rannsókna, greininga og annarra heimilda.

Áherslumálum er ætlað að mæta þeim áskorunum sem blasa við íslensku menntakerfi en þessar áskoranir eru m.a. slakur námsárangur grunnskólanema, lágt hlutfall nema sem innritast í iðn-, verk og listnám, mikið brottfall nemenda í framhalds- og háskólum, lágt hlutfall nema í sjálfstætt starfandi skólum og breytingar á hæfnikröfum vegna tæknibreytinga. Meðal helstu tillagna er að leikskólapláss verði tryggt strax eftir fæðingarorlof, grunnskóli verði styttur um eitt ár, sama verði greitt með grunnskólabörnum óháð rekstrarformi skóla sem þau sækja, háskólar verði sameinaðir og teknar verði upp fjöldatakmarkanir í þeim að norrænni fyrirmynd.

Meðal helstu tillagna er að leikskólapláss verði tryggt strax eftir fæðingarorlof, grunnskóli verði styttur um eitt ár, sama verði greitt með grunnskólabörnum óháð rekstrarformi skóla sem þau sækja, háskólar verði sameinaðir og teknar verði upp fjöldatakmarkanir í þeim að norrænni fyrirmynd.

Helstu tillögur og áhersluatriði SA í menntamálum

Leikskóli

Leikskólapláss verði tryggt öllum börnum eftir að fæðingarorlofi lýkur. Brúa þarf umönnunarbil sem myndast hefur þar á milli. Rannsóknir sýna að það lendir oftar á mæðrum að brúa þetta bil sem getur haft slæm áhrif á starfsframa þeirra. Lögð verði meiri áhersla á forgangsröðun fjár en að horfið verði frá hugmyndum um lækkun leikskólagjalda eða gjaldfrelsi.

Grunnskóli

Skólaárum verði fækkað í níu með lengingu skólaársins. Það muni bæta námsárangur, minnka umönnunarbil, draga úr kennaraskorti, hækka ævitekjur, vega á móti neikvæðum afleiðingum öldrunar þjóðarinnar, auka hagvöxt og stuðla að betri nýtingu fjár í kerfinu.

Framhaldsskóli

Fjölga þurfi til muna þeim sem sækja iðn-, starfs- og listnám. Til þess þurfi ekki aukið fé heldur fyrst og fremst aukna fræðslu allt frá grunnskóla og hugarfarsbreytingu hjá foreldrum og ungmennum.

Háskóli

Fjöldatakmarkanir verði teknar upp í háskólum að norræni fyrirmynd í tengslum við endurskoðun fjármögnunarlíkans háskólanna. Það muni stuðla að betri nýtingu fjár sem muni skila sér í betri gæðum náms. Háskólar verði sameinaðir sem muni auka gæði náms, auka hagræðingu, bæta nýtingu mannauðs og styrkja skólana.

Framhaldsfræðsla

Fyrirsjáanlegt er að störf muni hverfa og ný skapast með tæknibreytingum. Ekki er sjálfgefið að þeir sem gegni störfum sem hverfa hafi til að bera þá færni sem nýju störfin þarfnast. Mæta þarf því með öflugri framhaldsfræðslu, styrkingu vinnustaðarins sem námsstaðar og skýrara hlutverki starfsmenntasjóða.

Sjálfstætt starfandi skólar

Rannsóknir sýna að námsárangur nemenda er betri, og auðveldara er að fá hæfa kennara í krefjandi bekki, þar sem stjórnendur hafa meira sjálfstæði. Því þarf að fjölga sjálfstætt starfandi leik-, grunn og framhaldsskólum. Það verður t.d. gert með því að tryggja nemanda sama fjármagn frá hinu opinbera óháð því hvaða skóla hann velur.

Menntadagurinn

Á Menntadegi atvinnulífsins 2020 sem haldinn var í Hörpu í febrúar var fjallað um sköpun í íslensku atvinnulífi og menntun út frá fjölmörgum sjónarhornum.

Mennta- og menningarmálaráðherra og forseti Íslands afhentu verðlaun fyrir hönd SA í tveimur flokkum; menntafyrirtæki ársins féll í skaut Orkuveitu Reykjavíkur og verðlaun sem menntasproti ársins hlaut Samkaup.
Mikið var um dýrðir á Menntadeginum. Hér má sjá stutta samantekt frá deginum.

Orkuveita Reykjavíkur og Samkaup hlutu verðlaun sem menntafyrirtæki og menntasproti ársins en Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra afhentu verðlaunin.

Þátttaka í þróunarverkefnum

Á ári hverju taka Samtök atvinnulífsins þátt í fjölda þróunarverkefna í tengslum við menntamál. Á meðal þessara verkefna er vinnuhópur um rafræna ferilbók, vinnuhópur um  frekari þróun á námi á fagháskólastigi auk þess sem SA átti fulltrúa í starfshópi um nýliðun í kennarastétt.  

Dr. Andreas Schleicher, yfirmaður menntamála hjá  Efnahags- og framfarastofnuninni OECD, heimsótti Samtök atvinnulífsins og flutti í tengslum við það opinn fyrirlestur í Hátíðarsal Háskóla Íslands. Schleicher er yfirmaður PISA-könnunarinnar og hefur góða sýn yfir verkefni OECD um samspil hæfni, menntunar og samkeppnishæfni þjóða. Fyrirlesturinn var vel sóttur Schleicher fundaði einnig með ráðherra og fleiri hagsmunaaðilum. Í máli Schleicher kom fram að hann telur bilið á milli þess sem að samfélagið þarfnast frá menntakerfinu og þess sem menntakerfið skilar samfélaginu sé ekki að minnka heldur að breikka, sem er mikil áskorun.  Hann sagðist a sama tíma sjá að á Íslandi sé verið að taka mikilvægt frumkvæði í því að gera kennarastarfið aðlaðandi. Gæði náms aldrei geta orðið meiri en gæði kennara og kennslu hans.

SA styrkir heimildarmynd um lesblindu

Samtök atvinnulífsins gengur á árinu til liðs við Sylvíu Erlu Melsted, Sagafilm og fleiri um framleiðslu á heimildarmynd um lesblindu sem byggð er á hugmynd Sylvíu. Sylvía Erla er ung tónlistarkona og frumkvöðull sem hefur ekki látið lesblindugreininguna stoppa sig í því að ná markmiðum sínum. Þetta gera samtökin í því ljósi að allt að 20% fólks glími við einhvers konar lesblindu, sem er þroskaröskun á námshæfni í lestri, skrift, stafsetningu og stærðfræði, auk þess sem hún getur birst í slæmu tímaskyni og lélegri ratvísi. Það er auðvelt að sjá í hendi sér þau tækifæri sem geta falist í að virkja þennan hóp og efla til góðra verka, en til þess þarf nýjar leiðir í menntamálum og jafnvel samfélaginu öllu.

SA tók þátt í gerð heimildamyndar um lesblindu, en heilmikil tækifæri eru í því fólgin að virkja þann hóp og efla til góðra verka.

Ungir frumkvöðlar

Líkt og síðustu ár tók SA þátt í og studdi við alþjóðlega verkefnið Ungir frumkvöðlar. Með verkefninu er ungt fólk í framhaldsskólum hvatt til að leggja fram hugmyndir um nýjungar sem gætu orðið grunnur að fyrirtækjum. Leiðbeinendur á vegum verkefnisins hafa séð til þess að nemendur hljóti aðstoð við að þróa hugmyndir sínar og við gerð viðskiptaáætlunar. Verkefnin eru kynnt á sýningu sem haldin er um vorið og bestu hugmyndirnar eru verðlaunaðar. Auk þess eru þær hugmyndir sem skara fram úr valdar til að taka þátt í samevrópskri keppni. Á þessum vettvangi hefur orðið til fjöldi hugmynda og verkefna sem nokkur hafa orðið að lífvænlegum fyrirtækjum.

Styrkir til meistaranema í Bretlandi

Samtök atvinnulífsins í samstarfi við breska sendiráðið bjóða upp á Chevening-námsstyrk á Íslandi. Í samstarfinu felst að styrkur er veittur til náms á meistarastigi við háskóla í Bretlandi og nemur 10.000 sterlingspundum á ári. Það er breska utanríkisráðuneytið sem, ásamt samstarfsaðilum, fjármagnar styrkinn en hann er sá virtasti sem veittur er erlendum námsmönnum í Bretlandi.

Fólk sem hyggur á nám sem gæti nýst atvinnulífinu er sérstaklega hvatt til að sækja um styrkinn.

Stjórnir og nefndir

Samtök atvinnulífsins eiga í góðu samstarfi við fjölda aðila um framþróun og mikilvæg verkefni í íslensku menntakerfi. Fulltrúar samtakanna sitja til að mynda víða í stjórnum og nefndum þar sem áhersla er lögð á stöðuga þróun og nýsköpun í menntun með það að leiðarljósi að styrkja samkeppnishæfni fyrirtækja og íslensks atvinnulífs.  Grunnurinn í þessari vinnu eru sjónarmið og þarfir atvinnulífsins til lengri og skemmri tíma og þau áherslumál sem SA hefur mótað og sett fram varðandi menntamál.

Á meðal þeirra stjórna sem SA á fulltrúa í eru Tækniþróunarsjóður, vísinda- og tækniráð, Háskólinn í Reykjavík, fulltrúaráð Bifrastar, Samráðshóp um nám fullorðinna, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Fræðslusjóður, Vinnustaðanámssjóður og nokkra starfsmenntasjóði á borð við SVS, Starfsafl, Landsmennt og menntunarsjóð Stjórnendafélags Íslands.