02

Vinnumarkaðurinn

Á fyrstu mánuðum ársins 2019 voru skýr merki um alvarlega kólnun í efnahagslífinu. Í könnun sem SA gerði meðal félagsmanna sinna í október 2018 kom fram að þeir töldu að svigrúm til launahækkana væri að meðaltali 1,9% á árinu 2019. Í ársfjórðungslegri könnun SA meðal 400 stærstu félagsmannanna sem birt var í mars 2019 kom fram að efnahagshorfur væru dökkar, einkum í útflutningsgreinunum, enginn skortur væri á starfsfólki og horfur væru á fækkun starfa í atvinnulífinu. Greiningar SA sýndu fram á að svigrúm til launahækkana væri lítið sem ekkert í ljósi mikillar hækkunar launakostnaðar á framleidda einingu undanfarin ár, sem t.a.m. hefði verið tvöfalt til þrefalt meiri en á hinum Norðurlöndunum.

Í samningalotunni vorið 2019 virtist sú hætta vofa yfir, þrátt fyrir greinileg merki um samdrátt í efnahagslífinu, að hin róttæku öfl sem komist höfðu til valda í forystu verkalýðshreyfingarinnar myndu uppskera efnahagslega kollsteypu með verkföllum og nauðungarsamningum sem væru í engu samræmi við getu atvinnulífsins. Það kom því mörgum þægilega á óvart þegar tiltölulega hófstilltir kjarasamningar voru undirritaðir við leiðandi stéttarfélög þann 3. apríl 2019, a.m.k. samanborið við þær launakröfur sem þau höfðu sett fram.

Í samningalotunni vorið 2019 virtist sú hætta vofa yfir, þrátt fyrir greinileg merki um samdrátt í efnahagslífinu, að hin róttæku öfl sem komist höfðu til valda í forystu verkalýðshreyfingarinnar myndu uppskera efnahagslega kollsteypu með verkföllum og nauðungarsamningum sem væru í engu samræmi við getu atvinnulífsins.

Kjarasamningurinn 3. apríl 2019 var milli SA annars vegar og VR, 10 félaga og deilda verslunarmanna og 19 félaga Starfsgreinasambandsins hins vegar, samtals 30 félaga og deilda með alls 78 þúsund félagsmenn. Í 30 sérstökum atkvæðagreiðslum tóku 17% félagsmannanna þátt og var samningurinn samþykktur með 85% greiddra atkvæða. Innan SA var samningurinn samþykktur með 98% greiddra atkvæða.

Félög iðnaðarmanna undirrituðu sambærilegan kjarasamning í maí og júní. Samningur iðnaðarmanna tók til rúmlega 15 þúsund starfsmanna og tók þriðjungur þeirra þátt í atkvæðagreiðslum og var hann samþykktur með tveimur þriðju hlutum atkvæða. Eftir samþykki iðnaðarmanna ákvarðaði samningurinn kjaraþróun tæplega 100 þúsund launamanna á almennum markaði og var þannig augljóslega orðinn stefnumarkandi fyrir aðra samningsgerð á vinnumarkaði.

Fjöldi undirritaðra kjarasamninga SA, eftir mánuðum, fyrir samningstímabilið 2019-2022

Launafólk á almennum vinnumarkaði með endurnýjaða kjarasamninga, eftir mánuðum, á samningstímabilinu 2019-2022

Á tímabilinu maí 2019 til apríl 2020 undirrituðu SA 100 kjarasamninga; 48 almenna samninga við félög innan ASÍ, 47 fyrirtækjasamninga og 5 við stéttarfélög utan ASÍ. Samningalotunni, sem staðið hefur óslitið í hartnær tvö ár, er þó enn ólokið þar sem enn hefur ekki verið gengið frá u.þ.b. 30 fyrirtækjasamningum. Samningalotu ríkis og sveitarfélaga við stéttarfélög er einnig fjarri því að vera lokið. Samningalotur á Íslandi taka þannig allt að tvö ár þótt skýr stefna sé mörkuð í upphafi með aðkomu stjórnvalda.

Samningsaðilar beggja vegna borðsins unnu nótt og dag að gerð Lífskjarasamningsins.

Samningurinn fékk í upphafi yfirskriftina Lífskjarasamningurinn 2019-2022 og er gildistími hans 1. apríl 2019 til 1. nóvember 2022. Nafnið fangar þær fjölþættu aðgerðir sem aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld sammæltust um á samningstímanum. Lífskjarasamningurinn er fjórþætt lausn sem byggir á hreinni krónutöluhækkun launa, styttri og sveigjanlegri vinnutíma, lækkun tekjuskatts launþega og sköpun skilyrða fyrir lækkun vaxta.

Halldór Benjamín, framkvæmdastjóri SA, í viðtali við Ríkisútvarpið um það leyti sem skrifað var undir Lífskjarasamninginn.

Samkvæmt samningnum hækka kauptaxtar um 90.000 kr. og hærri laun um 68.000 kr. í fjórum áföngum á samningstímanum og er beinn kostnaðarauki atvinnulífsins áætlaður um 16%. Engar prósentuhækkanir eru á launum en smærri launatengdir liðir hækka um 2,5% árlega. Samningurinn felur einnig í sér hagvaxtarauka, viðbótarhækkun ef hagvöxtur á mann er meiri en 1% á ári, og kauptaxtaauka ef launavísitala á almennum vinnumarkaði hækkar meira en kauptaxtar SGS.

Vinnutímastytting var útfærð þannig að samningsbundin vinnuvika verslunarmanna var stytt um 45 mínútur á viku en hjá verkafólki og iðnaðarmönnum er stytting möguleg með samkomulagi milli starfsmanna og stjórnenda niður í 36 virkar vinnustundir á viku, úr 37:05. Útfærsla samninga iðnaðarmanna gerir auk þess ráð fyrir að starfsmenn geti farið fram á styttingu vinnuviku niður í 36:15 ef samkomulag hefur ekki verið gert um annað. Lífskjarasamningurinn byggir á því að starfsfólk og atvinnurekendur velji það fyrirkomulag sem hentar best á hverjum vinnustað, hvort sem það er óbreyttur vinnutími, styttri vinnudagur eða uppsöfnun styttingar þannig að frí sé veitt í hálfa eða heila daga.

Í viðræðunum var á köflum hressilega tekist á, við samningsborðið og í fjölmiðlum.

Einn þáttur í aðkomu ríkisstjórnarinnar að Lífskjarasamningnum var lækkun tekjuskatts launafólks. Var þriggja þrepa skattkerfi lögfest með nýju skattþrepi fyrir lægstu tekjurnar. Jafnframt hækkuðu barnabætur og persónuafsláttur. Þá var gefið fyrirheit um lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði og víðtækar aðgerðir í húsnæðismálum.

Frá gerð samningsins hafa meginvextir Seðlabankans lækkað 8 sinnum, úr 4,5% í 1,75%

Eitt meginmarkmið Lífskjarasamningsins var að skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta. Þáttur í því var að samningurinn raskaði ekki samkeppnisstöðu atvinnulífsins og stuðlaði að lágri verðbólgu. Frá gerð samningsins hafa meginvextir Seðlabankans lækkað 8 sinnum, úr 4,5% í 1,75%.