12

Samtök atvinnulífsins

Stjórn SA kom sjö sinnum saman á starfsárinu, en hana skipa 20 fulltrúar auk formanns. Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar voru eftirfarandi kosin í framkvæmdastjórn, sem skipuð er sjö fulltrúum auk Eyjólfs Árna Rafnssonar, formanns SA: Árni Sigurjónsson, Birna Einarsdóttir, Bjarnheiður Hallsdóttir, Guðrún Hafsteinsdóttir, Helga Árnadóttir, Jens Garðar Helgason og Jón Ólafur Halldórsson. Jens Garðar Helgason var kjörinn varaformaður SA. Framkvæmdastjórnin kom tíu sinnum saman á starfsárinu.
Stjórn SA, auk framkvæmdastjóra og aðstoðarframkvæmdastjóra samtakanna.

Starfsárið 2019-2020

Í upphafi starfsársins ríkti bjartsýni um að ljúka mætti samningalotunni á almennum og opinberum vinnumarkaði fyrir sumarleyfi í ljósi þess að komist höfðu á kjarasamningar fyrir 90% starfsmanna á almennum vinnumarkaði með viðamikilli aðkomu stjórnvalda. Það fór þó á annan veg og samningalotunni er enn ólokið þótt rúmir 13 mánuðir séu liðnir frá undirritun hins stefnumarkandi Lífskjarasamnings þann 3. apríl 2019. Samningamálin voru því reglulega á dagskrá stjórnanna.

Meðal umræðuefna á fundum stjórnar SA má nefna fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2020-2024, skattahækkanir undanfarins áratugar, þörf á opinberu eftirliti með sjúkra- og félagssjóðum verkalýðsfélaga, áformaðar breytingar á samkeppnislögum, áhrif kórónukreppunnar á atvinnulífið og þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til í því skyni að mæta fordæmalausum aðstæðum.

Umræðuefni stjórnar SA eru fjölbreytt og taka á flestum stærstu þáttum samfélagsins.

Framkvæmdastjórnin fjallaði um fjárhagsáætlun SA, dagskrá og áherslu SA á starfsárinu, EES-samninginn og þær hættur sem að honum steðjuðu vegna neikvæðrar umræðu um orkupakka 3, markmið SA í umhverfismálum, óstöðugt starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja, málefni lífeyrissjóða og tilnefningar í stjórnir þeirra. Þá var fjallað um þörf endurbóta á samkeppnislögum, áformaðan Þjóðarsjóð, samfélagsábyrgð, viðbrögð SA við Samherjamálinu og Global Compact, mat á umhverfismálum, einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, félagsgjöld SA, viðbrögð SA við kórónukreppunni og leiðbeiningar til aðildarfyrirtækja, mögulega viðspyrnu við efnahagslegum samdrætti s.s. innviðauppbyggingu og slökun aðhalds peningastefnunnar, launahækkun 1. apríl 2020 og leiðir til að mæta henni, innlent markaðsátak Íslenskt – gjörið svo vel og aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar.

Stjórn Samtaka atvinnulífsins fyrir starfsárið 2019 - 2020

Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður
Jens Garðar Helgason
Árni Sigurjónsson
Bjarnheiður Hallsdóttir
Birna Einarsdóttir
Bogi Nils Bogason
Davíð Torfi Ólafsson
Elín Hjálmsdóttir
Guðrún Hafsteinsdóttir
Gunnar Egill Sigurðsson
Heiðrún Lind Marteinsdóttir
Helga Árnadóttir
Hjörleifur Stefánsson
Hörður Arnarson
Jón Ólafur Halldórsson
Margrét Sanders
Rannveig Rist
Sigurður R. Ragnarsson
Sigurður Viðarsson
Valgerður Hrund Skúladóttir
Ægir Páll Friðbertsson

Skrifstofa SA

Nokkrar breytingar urðu á skrifstofu SA á árinu. Hrafnhildur Stefánsdóttir, yfirlögfræðingur, lét af störfum vegna aldurs eftir 33 ára starf. Hörður Vilberg, samskiptastjóri SA, hvarf til annarra starfa eftir 15 ára starf og tók Ólöf Skaftadóttir við starfinu. Þá lét Óttar Snædal, hagfræðingur, af störfum eftir 5 ára starf hjá SA.