10

Samskipti

Átök á vinnumarkaði og langur aðdragandi að gerð Lífskjarasamningsins 3. apríl 2019 settu mark sitt á fréttir af atvinnulífinu á starfsárinu. Alls var vísað yfir 3.000 sinnum til SA á síðasta ári í fjölmiðlum sem er fáheyrt, ekki eingöngu um kjarasamninga heldur einnig fjölmörg önnur brýn mál samfélagsins sem SA láta sig varða.

Vefur SA er uppspretta frétta um afstöðu samtakanna í ýmsum hagsmunamálum og þar er einnig að finna ýmsar hagnýtar upplýsingar fyrir aðildarfyrirtæki s.s. um starfsmannamál. Á samfélagsmiðlum, Facebook og Twitter, og í Sjónvarpi atvinnulífsins er svo að finna fjölbreytt efni þar sem vakin er athygli á starfi samtakanna.

Sjónvarp atvinnulífsins

Nýr fullkominn fjarfundarbúnaður var tekinn í notkun í Húsi atvinnulífsins vorið 2019. Hann gerir SA, aðildarsamtökunum sex og Viðskiptaráði Íslands kleift að senda beint út fundi og fræðsluefni í miklum gæðum á vefnum. Framtakið hefur hlotið góðar viðtökur og útsendingarnar eru kærkomin þjónusta fyrir landsbyggðarfólk eða þá sem vilja fylgjast með á skrifstofu sinni í stað þess að gera sér ferð á staðinn. Búnaðurinn kom sér vel þegar Covid-19 skall á af fullum þunga í mars og boðið hefur verið upp á fjölda fjarfunda meðal félagsmanna um stöðu mála og brýn mál sem nauðsynlegt er að vita af þegar samkomubann er í gildi og afkomu fyrirtækja er ógnað.

Búnaðurinn kom sér vel þegar Covid-19 skall á af fullum þunga í mars og boðið hefur verið upp á fjölda fjarfunda meðal félagsmanna um stöðu mála og brýn mál sem nauðsynlegt er að vita af þegar samkomubann er í gildi og afkomu fyrirtækja er ógnað.

Þínar síður

Til að geta fylgst vel með upplýsingum frá SA er mikilvægt að tengiliðir fyrirtækisins séu rétt skráðir. Þá er hægt að uppfæra á Þínum síðum sem er að finna á vefjum SA, SI, SAF og SVÞ en þegar aðildarfyrirtæki fara inn á síðurnar sínar opnast ný þjónustugátt sem var tekin í notkun á starfsárinu. Þar geta félagsmenn sótt sér ýmsa þjónustu og upplýsingar eftir rafræna auðkenningu ásamt því að taka þátt í kosningum fyrir aðalfundi samtakanna. Aðildarfyrirtæki eru hvött til að fara inn á síðurnar og skoða hvort upplýsingar þeirra séu réttar. Forsvarsmaður fyrirtækisins sem skráður er sem rétthafi á aðalfundi mun eiga kost á að kjósa fyrir hönd fyrirtækisins.

Vinnumarkaðsvefur SA

Aðildarfyrirtæki SA hafa aðgang að vinnumarkaðsvef SA þar sem er að finna yfirgripsmikið hagnýtt efni um kjarasamninga og starfsmannamál fyrirtækja sem stjórnendur geta sótt hvenær sem hentar. Bæði á vef SA og á vinnumarkaðsvefnum er að finna yfirgripsmikið efni vegna Covid-19 en SA hafa skilgreindu hlutverki að gegna meðal almannavarna til að koma mikilvægum upplýsingum til félagsmanna.

Yfirlit yfir helstu viðburði SA á starfsárinu 2019-2020 fylgir hér á eftir en ítarlegri umfjöllun um þá má nálgast á vef SA.

Tækifærin í hringrásarhagkerfinu

Hringrásarhagkerfið (e. circular economy) snýst um það hvernig nýta má hráefni á sem skilvirkastan hátt og fyrirbyggja sóun með breyttum áherslum í vöru- og þjónustuhönnun með sjálfbærni að leiðarljósi. Ný viðskiptalíkön deilihagkerfisins eru að verða sífellt algengari þar sem fremur er byggt á samnýtingu en eignarhaldi. Sterkir innviðir Norðurlandanna gera þeim kleift að leiða þessa byltingu. Avanto Ventures, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Matís og Nýsköpunarmiðstöð Íslands stóðu að fundinum sem fór fram í Húsi atvinnulífsins þann 14. maí 2019.

Yfirmaður menntamála hjá OECD til Íslands

Dr. Andreas Schleicher, yfirmaður menntamála hjá Efnahags- og framfarastofnuninni OECD, flutti opinn fyrirlestur í Hátíðarsal Háskóla Íslands 7. júní síðastliðinn. Schleicher er yfirmaður PISA-könnunarinnar en á fundinum ræddi hann um stöðu Íslands samanborið við aðrar þjóðir. Samtök atvinnulífsins og Háskóli Íslands stóðu að fundinum.

Samfélagsábyrgð í framkvæmd

Samtök atvinnulífsins, Festa og verkefnastjórn stjórnvalda um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna stóðu fyrir opnum morgunfundi í júní síðastliðnum þar sem fjallað var um samfélagsábyrgð og heimsmarkmiðin. Kynningar frummælenda má nálgast á vef SA.

Hrein og sjálfbær höf

Samtök atvinnulífsins og UN Global Compact í Bandaríkjunum efndu til opins fundar í Húsi atvinnulífsins þann 8. ágúst síðastliðinn um hrein og sjálfbær höf til framtíðar. Upptaka frá fundinum er aðgengileg á vef SA ásamt kynningum frummælenda.

Tilefni fundarins var að kynna nýlegan vettvang á vegum Sameinuðu þjóðanna sem nefnist á ensku Action Platform for Sustainable Ocean Business. Markmið hans er ekki síst að leiða saman ólíka aðila til að hanna og þróa nýja umhverfisvæna tækni og aðferðir sem geta hjálpað þjóðum heimsins að ná 17 heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um betri heim fyrir árið 2030. Hrein og heilbrigð höf eru stór þáttur í því mikilvæga verkefni sem þjóðir heimsins hafa einsett sér að leysa.

Samstarfsvettvangur um loftslagsmál og grænar lausnir

Stofnfundur Samstarfsvettvangs um loftslagsmál og grænar lausnir var haldinn 19. september. Húsfyllir var á fundinum og leyndi áhugi um tvö hundruð fundarmanna á málefninu sér ekki. Hlutverk vettvangsins er þríþætt. Í fyrsta lagi að efla samstarf atvinnulífs og stjórnvalda við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að kolefnishlutleysi árið 2040. Í öðru lagi mun vettvangurinn vinna með fyrirtækjum að markaðssetningu grænna lausna á alþjóðamarkaði. Í þriðja lagi er vettvangnum ætlað að styðja við orðspor Íslands sem leiðandi lands á sviði sjálfbærni.

Að samstarfsvettvanginum standa forsætisráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið, utanríkisráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samorka, Orkuklasinn, Viðskiptaráð Íslands, Bændasamtök Íslands, háskólar og Íslandsstofa, auk fjölda fyrirtækja. Samstarfsvettvangurinn er hýstur hjá Íslandsstofu og vinnur í nánu samstarfi við hana.

Sjávarútvegsdagurinn 2020

Sjávarútvegsdagurinn, í samstarfi Deloitte, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtaka atvinnulífsins var haldinn 25. september í Hörpu. Yfirskrift dagsins var: Hægara er að styðja en reisa. Kynntar voru niðurstöður gagnagrunns Deloitte um afkomu sjávarútvegsins árið 2018 og fyrirlestrar fluttir um stöðu og horfur útflutningsfyrirtækja.

Umhverfisdagur atvinnulífsins 2019

Umhverfisdagur atvinnulífsins var haldinn hátíðlegur 9. október í Hörpu. Upptökur frá deginum eru aðgengilegar í Sjónvarpi atvinnulífsins á vef SA. Umhverfisdagur atvinnulífsins er árlegur viðburður en að honum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru afhent en forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti þau. Umhverfisfyrirtæki ársins er Brim en Krónan á framtak ársins á sviði umhverfismála. Um 400 stjórnendur tóku þátt í deginum sem hefur fest sig í sessi sem mikilvægur umræðuvettvangur atvinnulífsins um umhverfismálin.

Ársfundur atvinnulífsins 2019

Ársfundur atvinnulífsins fór fram í Eldborg í Hörpu fimmtudaginn 17. október. Rúmlega 700 gestir mættu til fundarins og annar eins fjöldi horfði á dagskrána í beinni útsendingu. Upptökur eru nú aðgengilegar í Sjónvarpi atvinnulífsins á vef SA ásamt svipmyndum frá fundinum.

Sátt var efni fundarins og var rætt um hana úr ýmsum áttum. Á fundinum var einnig 20 ára afmæli Samtaka atvinnulífsins fagnað.

Vatnaskil urðu á íslenskum vinnumarkaði þegar Þjóðarsáttin var gerð 1990. Ásmundur Stefánsson, forseti Alþýðusambands Íslands 1980-1992 og Þórarinn Viðar Þórarinsson, framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands 1986-1999, brutu Þjóðarsáttina til mergjar á fundinum í stuttri svipmynd.

Ný bók Guðmundar Magnússonar, Frá Þjóðarsátt til Lífskjarasamnings. Samtök atvinnulífsins 1999-2019 kom einnig út 17. október. Hægt er að nálgast eintök af bókinni í móttöku Húss atvinnulífsins, Borgartúni 35 í Reykjavík.

Ársfundurinn fór nú fram að hausti en ákveðið var að aðalfundur samtakanna færi hér eftir fram að vori en ársfundur að hausti.

TEDxReykjavík 2020

TEDxReykjavík ráðstefnan var haldin í tíunda skipti 13. október í Háskólabíói. Samtök atvinnulífsins eru bakhjarl TEDxReykjavík eins og undanfarin ár. Að þessu sinni var fjallað um tíma breytinga. TEDx viðburðir eru smærri útgáfa af TED þar sem fyrirlesarar víðs vegar úr heiminum flytja stutt og kraftmikil erindi um allt milli himins og jarðar. TEDx-erindin eru svo birt á rásinni TEDx Talks á YouTube þar sem þau eru öllum aðgengileg.

Hvatningarverðlaun jafnréttismála 2019 til Landsvirkjunar

Landsvirkjun hlaut Hvatningarverðlaun jafnréttismála árið 2019 en þau voru veitt á fundi um jafnréttismál sem haldinn var í Hátíðarsal Háskóla Íslands 27. nóvember. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, tók við viðurkenningunni úr hendi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Hvatningarverðlaun jafnréttismála voru veitt í sjötta sinn en markmið þeirra er að vekja athygli á fyrirtækjum sem hafa jafnrétti að leiðarljósi í starfsemi sinni og jafnframt að hvetja önnur fyrirtæki til að gera slíkt hið sama. Verðlaunin eru veitt fyrirtæki sem hefur stuðlað að jöfnum möguleikum kynjanna til starfsframa, jöfnum launum, jafnvægi í kynjahlutföllum og aukinni vitund um þann ávinning sem jafnrétti hefur fyrir fyrirtækið og samfélagið.

Röddum landsmanna safnað saman

Landsmenn voru hvattir til þess í nóvember að leggja til rödd sína til að kenna tölvum og tækjum íslensku á vefnum www.samromur.is. Þetta var eitt af þeim fjölmörgu áhugaverðu máltækniverkefnum sem kynnt voru á ráðstefunni Er íslenskan góður „bissness“? sem Samtök atvinnulífsins stóðu fyrir ásamt Almannarómi, miðstöð um máltækni, Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Íslandsmiðstöð evrópuverkefnanna CLARIN og European Language Grid og Deloitte.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA lögðu raddir sínar til verkefnisins á fundinum. Verkefnin sem kynnt voru á fundinum eru hluti af verkáætlun fyrir máltækni í íslensku sem kynnt var af stýrihóp, sem SA átti aðild að árið 2017. SA eru einn af stofnaðilum Almannaróms, sem reka verkáætlunina fyrir hönd stjórnvalda.

Gestir ráðstefnunnar skemmtu sér konunglega. Glöggir geta séð að meira að segja hinn landsþekkti uppistandari Bergur Ebbi Benediktsson skellti upp úr.

Betri heimur byrjar heima

Torfi Þ. Þorsteinsson, forstöðumaður samfélagstengsla Brims, sagði frá umfangsmiklu umhverfisstarfi fyrirtækisins á opnum fundi í Húsi atvinnulífsins, 7. nóvember. Brim hefur tekið umhverfismálin föstum tökum. Fyrirtækið leggur áherslu á samfélagsábyrgð og virðingu fyrir umhverfinu og hefur unnið að því að kortleggja áhrif og ábyrgð félagsins.

Flutningalandið 2019

Íslenski sjávarklasinn, Samtök atvinnulífsins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið efndu til ráðstefnunnar Flutningalandið Ísland í Hörpu 14. nóvember. Boðið var upp á fjölbreytta og áhugaverða dagskrá þar sem m.a. var horft til tækifæra og ógnanna framundan í þessari mikilvægu atvinnugrein Íslendinga.

Netárásir á fyrirtæki

Norsk Hydro varð fyrir alvarlegri netáras tölvuþrjóta 2019. Árásin lamaði stóran hluta starfsemi fyrirtækisins í langan tíma. Fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum stendur mikil ógn af netárásum og ýmiss konar netsvikum óprúttinna aðila. Reynslan sýnir að hver sem er getur orðið fyrir slíku, hvenær sem er. Þetta kom fram á opnum fundi Samtaka atvinnulífsins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins sem fram fór 11. nóvember á Grand Hótel Reykavík. Upptökur frá fundinum eru aðgengilegar á vef SA.

Rýnt í 2020

Samtök atvinnulífsins buðu að venju fjölmiðlum heim á fyrstu dögum nýs árs og rýndu í stöðu og horfur. Á fundinum kom fram að 2020 gæti orðið farsælt ár ef gerðir yrðu skynsamir kjarasamningar á opinberum markaði í samræmi við Lífskjarasamninginn. Bent var á að uppsveiflu í tæpan áratug hafi lokið árið 2019 en ef réttar ákvarðanir væru teknar á nýju ári myndu þær grynnka niðursveifluna og flýta viðsnúningi í efnahagslífinu. Skjótt skipast veður í lofti og innreið Covid-19 með tilheyrandi lokun landsins að stærstum hluta setti efnahagslífið og vinnumarkaðinn í uppnám. Öflugar mótvægisaðgerðir stjórnvalda hafa verið kynntar en þegar þetta er ritað um miðjan apríl 2020 sér ekki til lands.

Skattadagurinn 2020

Árlegur skattadagur Deloitte í samstarfi við Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands fór fram 14. janúar í Hörpu. Meðal þátttakenda var Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra. Þá var farið yfir helstu skattalagabreytingar og hvernig hægt væri að styrkja samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu.

Innra kolefnisverð á tímum loftslagsbreytinga

Jóna Bjarnadóttir, forstöðumaður umhverfis og auðlinda hjá Landsvirkjun og Daði Sverrisson, verkefnastjóri innra kolefnisverðs Landsvirkjunar, brutu innra kolefnisverð á tímum loftslagsbreytinga til mergjar en fyrirlestur þeirra var í beinni útsendingu frá Húsi atvinnulífsins. Fundurinn var hluti af fundaröðinni Betri heimur byrjar heima.

Fræðslufundir SA um starfsmannamál og kjarasamninga 2020

Samtök atvinnulífsins buðu félagsmönnum sínum upp á fjölmarga fræðslufundi um starfsmannamál og kjarasamninga á starfsárinu. Fundað var víða um landið en fyrsti fundurinn var 4. febrúar í Reykjanesbæ. Farið var yfir fjölbreytt efni og fyrirspurnum svarað. Eflaust verður framhald á fundaröðinni að loknu samkomubanni.

Plast og nýsköpun í endurvinnslu

Fundaröðin Betri heimur byrjar heima hélt áfram í Húsi atvinnulífsins 20. febrúar þegar fjallað var um plast og nýsköpun í endurvinnslu. Áslaug Hulda Jónsdóttir hjá Pure North Recycling kom í heimsókn og sagði m.a. að endurvinnsla væri fjárfesting til framtíðar. Minnka ætti notkun á plasti og endurvinna það í auknum mæli.

Menntadagur atvinnulífsins 2020

Sköpun í alls kyns myndum var til umfjöllunar á Menntadegi atvinnulífsins sem fór fram í Hörpu 5. febrúar. Rúmlega 300 manns úr atvinnulífinu tóku þátt og enn fleiri horfðu á beina útsendingu frá fundinum. Upptökur af erindum frummælenda eru aðgengilegar í Sjónvarpi atvinnulífsins á vef SA ásamt erindum úr málstofu.

Menntaverðlaun atvinnulífsins voru veitt fyrirtækjum sem skara fram úr í fræðslu- og menntamálum. Orkuveita Reykjavíkur er Menntafyrirtæki ársins og Samkaup Menntasproti ársins. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra afhentu verðlaunin.

Menntadagurinn er árlegur viðburður, að honum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.